FERÐAFÉLAG TEKUR TIL STARFA

Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs var stofnað með pompi og prakt þann 1. mars sl á Hótel B59 í Borgarnesi.
Ríflega hundrað manns mættu á fundinn og flestir þeirra gerðust stofnfélagar. Síðan hafa líka fjölmargir bæst við og þegar þetta er ritað eru stofnfélagar orðnir tæplega 160!
Áhugasamir geta gerst stofnfélagar út þetta ár.
Einfaldasta leiðin til að skrá sig í félagið er að senda tölvupóst á ffb@ffb.is þar sem fram kemur:
Fullt nafn, kennitala, heimilsifang, töluvpóstur og símanúmer auk þess sem taka þarf fram hvort viðkomandi er félagi í FÍ eða öðrum deildum þess.
Félagsgjald fyrir árið 2021 er 7.900 krónur og allir félagar fá senda hina vönduðu árbók FÍ.
Þess ber hinsvegar að geta að ef hjón vilja vera félagsmenn, bæði þ.e.a.s., þá greiðir annað þeirra aðeins hálft gjald og fær þá ekki árbók.
Einhverja daga til viðbótar tekur að stofna félagið formlega og fá kennitölu og annað sem við er að etja. Stefnt er að því að hægt verið að byrja að innheimta félagsgjöld fyrir páska.
Fyrstu verkefnin í undirbúningi
Fyrsti formlegi stjórnarfundur FFB var haldinn í gærkvöldi en undirbúningur fyrir fyrstu verkefni er þegar hafinn af krafti. Meðal annars er unnið að gerð þessarar heimasíðu fyrir félagið þar sem hægt verður að setja inn margvíslegar upplýsingar fyrir félagsmenn og annað göngufólk.
Undirbúningur að stikun og merkingu Vatnaleiðar er hafinn. Meðal annars er verið að útvega tilskilin leyfi og huga að hönnun skilta fyrir leiðina og ræða við alla þá sem tengjast málinu á einhvern hátt. Þá hafa stjórnarmenn, með aðstoð sérfræðinga á því sviði, lagst yfir hvar hægt er að sækja um styrki til merkingar og kortagerðar sem og í önnur verkefni. Stikunefnd félagsins er komin í starholurnar og byrjuð að pússa stóru sleggjurnar!
Þess má geta að þó Vatnaleiðin sé sett í forgang þá eru fleiri verkefni í undirbúningi nú þegar og verða þau kynnt síðar.
Stofnganga á næstunni
Göngunefndin er sömuleiðis að reima á sig gönguskóna og vinnur að gönguáætlun fyrir þetta ár. Fyrsta verkefnið er svokölluð “stofnganga” sem væntanlega verður auglýst innan tíðar.
Það er vor í lofti, þrátt fyrir fáein snjókorn, og bara spennandi tímar framundan.
Stjórn FFB