Ný gönguleið kynnt á aðalfundi
Aðalfundur Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs, sá fjórði frá upphafi, var haldinn á Hótel Vesturlandi fimmtudaginn 20. mars. Fundurinn var ágætlega sóttur og fór afar friðsamlega fram.
Á fundinum var farið fyrir þau verkefni sem hafa verið í gangi á vegum félagins. Þar ber hæst fjölbreyttar gönguferðir sem félagið stendur fyrir í hverjum mánuði. Þá vinnur félagið að uppbyggingu gönguleiða og í sumar er vonast til að ljúka tveimur stærstu verkefnunum, þ.e. Hafnarfjalli þar sem eftir er að koma fyrir útsýnissskífu sem er verið að ljúka smíði á. Einnig er eftir að merkja sérstaklega hina sjö tinda Hafnarfjalls.
Hitt stóra verkefnið er Vatnaleið en þar er eftir að koma fyrir vegprestum sem vísa á þekkt fjöll og hliðum með nafni leiðarinnar sem verða á upphafst og endastað leiðarinnar.
Á fundinum kynnti Ragnar Frank Kristjánsson, landslagsarkitekt hönnun nýrrar gönguleiðar sem gengur undir vinnuheitinu Borgarjarðarbraut. Hugmynd að þessari leið kom upp innan félagsins fyrir fáum misserum en hún á að ná frá Hvalfjarðarbotni að Húsafelli og þvera Borgarfjarðardali. Lagt er upp með að þetta sé fimm daga leið og að hún nýti innviði sem fyrir eru svosem gistingu og greiðasölu.
Stjórn FFB réði Ragnar Frank til að hanna leiðina á síðasta ári og skilaði hann inn mjög vandaðri og spennandi tillögu að legu leiðarinnar. Næsta skref er að fara í við landeigendur þar sem leiðin mun liggja um og hefur Ragnar tekið það verkefni að sér. Vonandi verður svo í framhaldinu hægt að huga að framkvæmdum, svosem stikun leiðarinnar, brúargerð ofl.
Á aðalfundinn mættu einnig fulltrúar frá hlaupahópnum Flandra og kynntu nýtt utanvegahlaup, Hafnarfjall Ultra sem haldið verður 28. júni en þar verða í boði fjórar hlaupaleiðir um Hafnarfjall og nágrenni. Ljóst er að töluvert af sjálfboðaliðum þarf fyrir framkvæmd hlaupsins og stjórn FFB hvetur félagsmenn, sem áhuga hafa, til að leggja þessu athyglisverða framtaki til með vinnuframlagi. Þá má geta þess að stefnt verður að því að ljúka framkvæmdum FFB við Hafnarfjall áður en að hlaupinu kemur.
Núverandi stjórn FFB var endurkjörin á fundinum.
Hana skipa
Gísli Einarsson, forseti
Sigurður Magnússon, varaforseti
Gíslína Jensdóttir, ritari
Guðrún Ólafsdóttir, gjaldkeri
Jón Heiðarsson, meðstjórnandi
María Jónsdóttir, varamaður
Jakob Guðmundsson, varamaður