Þrír styrkir til Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra hefur úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2022, að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins, samkvæmt tilkynningu frá Stjórnarráðinu. Að þessu sinni er úthlutunin rúmlega 548 milljónir króna. Þrír af þeim styrkjum sem úthlutað er að þessu sinni fara til verkefna á vegum Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs (FFB), samtals eru þeir að upphæð 9.210.000,-

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.
„Styrkirnir fara til verkefna hringinn í kringum landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Uppbyggingin er grundvölluð á heildarsýn fyrir hvern landshluta og áfangastaðaáætlanir. Styrkur úr sjóðnum stuðlar að bættri upplifun og aðgengi ferðamanna, bættu öryggi og við styðjum við viðkvæma náttúru landsins, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Hafnarfjall

Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs fær styrk upp á 4.080.000,- til að hanna, smíða og setja upp útsýnisskífu á toppi Hafnarfjalls. Þá er ætlunin að gera áningarstað við Vatnsveitustífluna, sem er við leiðina á fjallið. Einnig verða settir vegvísar á þremur stöðum, sem vísa tvær leiðir upp á tind Hafnarfjalls, sem er sá fyrsti á svokallaðri „Sjö tinda leið“. Ætlunin er síðan að merkja hvern tind með nafni hans og vegalengd á næsta tind. Þá er ætlunin að stika sjö tinda leiðina.
Í umsögn stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða segir: „Verkefnið er á áfangastaðaáætlun svæðisins, bætir úr skorti á grunnþjónustu og verndar náttúru. Það eykur afköst staðarins, bætir öryggi og rímar því ágætlega við margar helstu áherslur sjóðsins.

England

FFB hlaut styrk upp á 2.850.000 til hönnunar og undirbúnings gönguleiðar og útivistarsvæðis á Englandi í Lundarreykjdal. Verkefnið felst í að hanna göngubrú yfir Tunguá, við Englandslaug, hanna stíga að lauginni og við hana, hanna salernis og búningsaðstöðu sem fellur að umhvefinu ásamt þeirri skiplagsvinnu sem nauðsynleg er. Einnig er ætlunin að tengja Englandslaug og Pétursvirki saman með gönguleið og í framhaldinu að merkja hringleið sem tengir þessi mannvirki við Hótel Basalt á Iðunnarstöðum og Krosslaug á merkjum Brennu og Reykja. Þetta er ný þrettán kílómetra löng gönguleið sem nú þegar hefur vakið athygli. Einnig verður styrkurinn nýttur til að undirbúa endurbætur á Pétursvirki. Þess má geta að sótt var um styrk í Fornminjasjóð til að lagfæra Pétursvirki og bjarga því frá eyðileggingu en þeirri umsókn var hafnað.
Englandsverkefnið verður unnið í samráði við landeigendur á Englandi og nærliggjandi bæjum, Ungmennafélagið Dagrenningu í Lundarreykjadal og fleiri aðila.
Í umsögn stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða segir:
„Verkefnið rímar vel við áherslur sjóðsins varðandi öryggi ferðamanna, innviðauppbyggingu og náttúruvernd.“

Vatnaleið

Þriðja verkefni FFB sem hlaut styrk úr sjóðnum er uppbygging Vatnaleiðar, kr. 2.280.000. – Verkefnið felst í að halda áfram með uppbyggingu Vatnaleiðar og auka enn frekar á öryggi göngufólks og um leið að auka ánægju af gönguferðum á svæðinu sem og að vernda umhverfið.
Verkefnið felst í að stika og merkja alla leiðina, setja upp upplýsingaskilti sem verða við Hítarvatn og Langavatn og setja handrið á stíflu sem er í árósi við Hítarvatn.
Í umsögn stjórnar Framkvæmdasjóðsins segir: „Verkefnið er prýðilegt innviðaverkefni, snýr að bættu öryggi, náttúruvernd og er auk þess á áfangastaðaáætlun svæðisins. „
Stjórn Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs þakkar, fyrir hönd félagsins, fyrir myndarlegar styrkveitingar og um leið viðurkenningu á umræddum verkefnum. „Það er óhætt að segja að þessar styrkveitingar séu framar okkar björtustu vonum, þó vonir okkar séu almennt bjartar“ segir Gísli Einarsson, forseti félagsins. „Við erum sjálf sannfærð um að þessi verkefni séu öll verðug og verði útivistarfólki í héraði, og utan héraðs, til framdráttar. Við gerum okkur líka grein fyrir að það er verk að vinna en miðað við hverstu ótrúlega góðar viðtökur félagið hefur fengið á sínu fyrsta starfsári þá erum við viss um að okkur mun vinnast vel á næstu misserum,“ segir Gísli.