Útsýnisskífa á Hafnarfjall

Miðvikudaginn 7. september var gerður góður leiðangur á topp Hafnarfjalls á vegum Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs. Búið var að bíða í nokkurn tíma eftir nógu góðu skyggni enda var tilgangurinn að gera mælingar og skyssur fyrir útsýnisskífu sem til stendur að koma fyrir efst á Hafnarfjalli.

Í leiðangrinum tóku þátt Jakob Hálfdánarson, en hann hefur smíðað útsýnisskífur sem finna má um land allt, Jón Víðis Jakobsson, aðstoðarmaður hans, Bragi Hannibalsson, fjallamaður og Jónína Pálsdóttir, gjaldkeri FFB. Hópurinn lagði af stað fyrir birtingu og kom ekki niður fyrr en tekið var að skyggja. Verkið gekk vel, enda skyggni gott og rjómablíða á toppi Hafnarfjalls. Teknir vou yfir 300 gps punktar og hundruð ljómynda. Þá var hópurinn í símasambandi við landfróða menn í byggð til að geta skráð hárréttar upplýsingar um það sem fyrir augu ber á þeim stað þar sem skífan verður sett niður.

Nú tekur við að vinna úr öllum þeim gögnum sem aflað var í gær og síðan verður skífan sjálf smíðuð í vetur og vonandi sett á sinn stall í byrjun næsta sumars. Ef að líkum lætur ættu vinsældir Hafnarfjalls að aukast enn frekar með tilkomu útsýnisskífunnar. Verkefni þetta er styrkt af Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða.
Fyrr í sumar var sett upp upplýsingaskilti við rætur Hafnarfjalls og fyrir skömmu var lokið við að stika leiðina upp á topp og hreinsa gamlar girðingar sem lágu meðfram gönguleiðinni.